Follow

Contact

867-0661

Address

Mosfellsbær, Ísland

©2017 by Kallíópa. Proudly created with Wix.com

Um hálf klikkaðar hugmyndir og endapunkt fyrsta útgáfuferlisins

July 18, 2018

Þegar ég ákvað fyrir næstum því ári síðan að ég ætlaði að demba mér í útgáfustörf hafði ég í raun og veru ekki hugmynd um hvað ég var að gera. Þetta var svona skyndiákvörðun, ein af þessum sem lætur mann fá fiðring í magann af spennublandinni tilhlökkun og ein af þessum sem manni finnst svo ótrúlega góð að höfuðið er ekki í minnsta vafa um að hún sé framkvæmanleg, jafnvel þó hún sé hálf klikkuð. 

 

Ég lagði þess vegna af stað í þetta ferðalag, ef svo má kalla, full sjálfstrausts og fullviss um að verkefninu yrði lokið einhvern tímann á vormánuðunum. Ég gerði mér meira að segja í hugarlund að þetta yrði tiltölulega auðvelt. Birgitta, höfundur bókarinnar sem ég hafði hugsað mér að gefa út, þyrfti bara að klára að skrifa bókina, ég myndi lesa hana yfir, senda í prentun og selja og þá væri þetta allt saman klappað og klárt. Easy peasy eins og maður segir. 

 

En að vera útgefandi og ritstjóri og prófarkalesari samhliða því að halda uppi heimasíðu, sinna námi og mæta í vinnuna er aðeins meira en að segja það, komst ég að raun um. Og eins og gengur og gerist með hálf klikkaðar hugmyndir eru þær yfirleitt aðeins umfangsmeiri í framkvæmd en maður reiknaði með. 

 

Það tekur til dæmis ekki bara nokkrar vikur að ritstýra og prófarkalesa 180 blaðsíðna bók eins og ég hafði ímyndað mér. Það þarf að lesa hana oftar en einu sinni og oftar en tvisvar og þegar maður heldur að síðustu yfirferð sé lokið kemur maður auga á þrennt í viðbót sem þarf að laga eða mætti breyta. Það tekur heldur ekki bara nokkra klukkutíma að setja upp bókina í þar til gerðu forriti sem maður hefur aldrei áður litið augum, eins og ég hafði reiknað með án þess að hugsa málið almennilega til enda. Ég kann á Word og ég kann á Excel, hugsaði ég með mér, þetta getur ekki verið svo hræðilega mikið flóknara. En það kom á daginn að það var tiltölulega flókið. Ekki óframkvæmanlegt en samt sem áður flókið. 

 

En þrátt fyrir villtar hugmyndir um framkvæmanleika hálf klikkuðu hugmyndarinnar hefur þetta samt verið brjálæðislega skemmtilegt og lærdómsríkt ferli og við Birgitta erum loksins komnar að endapunktinum. Bókin er tilbúin; fullskrifuð, yfirfarin og uppsett, ekkert eftir nema að senda hana í prentun og vona svo að einhver vilji kaupa hana. Útgáfudagur (sem verður haldinn hátíðlega með útgáfuhófi) verður tilkynntur bráðlega þannig að fylgist vel með! 

 

 

Please reload

Our Recent Posts

March 19, 2019

November 15, 2018

Please reload

Archive

Please reload

Tags

Please reload

 
This site was designed with the
.com
website builder. Create your website today.
Start Now