Follow

Contact

867-0661

Address

Mosfellsbær, Ísland

©2017 by Kallíópa. Proudly created with Wix.com

Passamyndir

January 24, 2018

  

 „Síðustu daga hefur fjallið leitað á mig eða öllu heldur sumarið á fjallinu. Norska sumarið hef ég leyft mér að kalla það. Ég fer strax að hugsa um skáldsöguna Pan eftir Knut Hamsun þegar ég minnist á fjallið og sumarið, og þá fer ég líka að hugsa um ástina. Ef þú hefur lesið Pan þá veistu hvað ég meina. Ef þú hefur ekki lesið Pan veistu líka hvað ég meina. Það skiptir ekki máli. Flestir hugsa um ástina án þess að lesa Pan eða bækur yfirleitt.“

 

Á þessum setningum hefst nýjasta skáldsaga Einars Más, Passamyndir, og þær gripu mig um leið, gáfu mér tilfinningu sem ég fæ ekki oft á fyrstu blaðsíðu, hugskeyti um að ég stæði með eitthvað örlítið meira en meðalgóða bók í höndunum. Þetta var ein af þessum sem þurfti að lesa og þess vegna ákvað ég að halda áfram. 70 blaðsíðum síðar var ég þó farin að efast um sannleiksgildi þessa hugskeytis.

 

Bókin er byggð þannig upp að aðalpersóna bókarinnar Haraldur segir okkur sögu, sögu af löngu liðnu sumri, rétt eins og hann sæti í sama herbergi og við. Því fylgir að sjálfsögðu að áður en hann kemst að kjarna málsins dettur honum ýmislegt annað í hug sem leiðir hann út af sporinu og þess vegna fer sagan til að byrja með út og suður og fjallar í raun um allt annað en það sem Haraldur hefur hugsað sér að segja. Þannig er það auðvitað þegar maður rifjar upp eitthvað sem gerðist fyrir löngu, og að einhverju leyti verður þetta partur af sjarma sögunnar, en ég verð samt að viðurkenna að ég var alveg við það að gefast upp.

 

En Haraldur kemst á endanum að kjarna málsins -  sumrinu þar sem hann heldur út í heim, vinnur á norsku fjalli, finnur ástina og flakkar um Evrópu í leit að sjálfum sér - og þá er maður dreginn inn í alveg ótrúlega skemmtilega veröld sem nær fullkomlega tökum á einhverri tilfinningu eða andrúmslofti, þessu sem fylgir því að vera á ungur og á flandri, með heiminn liggjandi við fæturna; þessu sem fylgir því að vera frjáls og óháður öllum skyldum, að geta fundið sér nýjan stað, heimili til bráðabirgða, hvenær sem mann lystir. Frásögnin er nostalgísk og vekur upp ferðaþrá, löngun til að halda út í heiminn og drekka hann í sig.

 

En það var annað í bókinni sem greip mig ekki síður en ferðaþráin því jafnframt því að segja frá Evrópuflakkinu talar Haraldur um drauma sína um að verða skáld og fyrstu skref sín inn í skáldaheiminn. „Ég var að verða skáld þó að ég vissi ekkert hvað var að vera skáld. Ég veit það ekki ennþá, nema það er herbergi sem maður kemst inn í en ekki aftur út úr því.“ Önnur skáld hafa lýst listinni á svipaðan máta, til dæmis Kristín Marja í bók sinni Karitas án titils, og fyrir mitt leyti finnst mér ekki hægt að lýsa þessu betur; listin nær á manni tökum einhvers staðar djúpt í líkamanum, fangar mann og dregur með sér inn í aðra veröld. Og þegar maður er stiginn inn er ekki hægt að komast út aftur.

 

Á sama tíma og Haraldur lætur sig dreyma skáldadrauma finnur hann þó til óöryggis varðandi þá framtíð, efasemdir um eigin getu á svipuðum nótum og þær sem ég lýsti í síðustu grein:

 

”. . . hvað ef ég var ekki skáld? Hvað ef eftir mig lægi aðeins ein miðlungsgóð ljóðabók, jafnvel svo léleg að ég reyndi að fjarlægja hana síðar úr bókahillum á heimilum, einsog sagt var að Halldór Laxness gerði við gömlu ferðabækurnar frá Sovétríkjunum, lofrulluna um Sovétskipulagið og Stalín, sem hann gerði svo upp við löngu seinna, í Skáldatíma . . . Hvað ef ég ætti ekki fleiri orð eftir í pennanum og hætti að skrifa? Þá lægju þessi byrjandaljóð eftir mig einsog yfirlýsing um að ég vildi verða eitthvað sem ég varð svo ekki.”

 

Einari hefur tekist listilega vel að fanga andrúmsloft og tilfinningar ungdómsins og sýnir alls kyns hliðar á þeirri tilveru. Passamyndir er allt í senn saga af fyrstu skrefunum út í veruleikann, frelsi, ferðalagi, ást og draumum, en kannski fyrst og fremst af því hvað lífið getur verið ótrúlega skemmtilegt. Svo ég endi þetta á orðum Haralds: „Stundum er lífið bara What a wonderful world, og Louis Armstrong er sólin. Hann blæs í trompet og geislarnir flæða.“

 

 

 

 

 

 

Please reload

Our Recent Posts

March 19, 2019

November 15, 2018

Please reload

Archive

Please reload

Tags

Please reload

 
This site was designed with the
.com
website builder. Create your website today.
Start Now